10
Jesús svarar spurningum
1 Eftir þetta fór Jesús frá Kapernaum og kom til Júdeu og byggðanna austan Jórdanar. Fólkið streymdi til hans eins og áður og hann kenndi því.
2 Nokkrir farísear komu þá til hans og spurðu: „Leyfir þú hjónaskilnað?“ Þeir ætluðu að snúa á hann með þessari spurningu.
3 Jesús svaraði með annarri spurningu: „Hvað sagði Móse um slíkt?“
4 Þeir svöruðu: „Hann sagði að það væri ekkert við það að athuga. Það eina, sem maðurinn þyrfti að gera, væri að afhenda konu sinni skilnaðarbréf. Það væri allt og sumt.“
5 „Ég skal segja ykkur hvers vegna hann sagði þetta,“ sagði Jesús. „Það var tilslökun vegna illsku ykkar,
6-7 því þannig hafði Guð ekki hugsað sér það. Í upphafi skapaði hann karl og konu og hann ætlaði þeim að lifa saman alla ævi í hjónabandinu. Karlmaðurinn á því að yfirgefa föður og móður,
8 og búa með eiginkonu sinni, svo að þau verði ekki lengur tvö heldur eitt.
9 Það sem Guð hefur sameinað, má enginn maður sundur skilja.“
10 Þegar hann síðar var orðinn einn með lærisveinum sínum í húsinu, tóku þeir upp þráðinn á ný.
11 Þá sagði Jesús: „Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni.
12 Og skilji kona við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór.“
13 Sumir komu með börnin sín til Jesús og báðu hann að blessa þau. Lærisveinarnir stugguðu þeim þá frá og sögðu að ekki mætti ónáða hann.
14 Þegar Jesús sá þetta, sárnaði honum, og hann sagði við lærisveinana: „Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki, því slíkra er guðsríki.
15 Ég legg á það áherslu að sá, sem ekki vill koma til Guðs eins og lítið barn, mun aldrei komast inn í ríki hans.“
16 Síðan tók hann börnin í fang sér, lagði hendur yfir þau og blessaði.
17 Jesús var í þann veginn að leggja upp í ferð, þegar maður nokkur kom hlaupandi til hans, kraup og spurði. „Góði meistari, hvað verð ég að gera til að eignast eilíft líf?“
18 „Hvers vegna kallar þú mig góðan?“ spurði Jesús. „Enginn er góður nema einn og það er Guð.
19 Þú þekkir boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, ekki drýgja hór, ekki stela, ekki ljúga, ekki svíkja og heiðra skaltu föður þinn og móður.“
20 „Meistari,“ svaraði maðurinn, „ég hef hlýtt þessum boðorðum allt frá barnæsku.“
21 Jesú fór að þykja vænt um þennan mann; hann leit á hann og sagði: „Eitt vantar þig samt: Seldu allt sem þú átt og gefðu fátækum peningana – þá munt þú eiga auðæfi á himnum. Komdu síðan og fylgdu mér.“
22 Þá varð maðurinn niðurlútur og fór burt, dapur í bragði, því hann var mjög ríkur.
23 Jesús horfði á eftir honum þegar hann gekk burt, síðan sneri hann sér að lærisveinunum og sagði: „Það er erfitt fyrir ríka menn að komast inn í guðsríki.“
24 Lærisveinarnir urðu undrandi! Jesús sagði því aftur: „Börnin góð, það er erfitt fyrir þá, sem treysta auðæfunum, að komast inn í guðsríki.
25 Auðveldara er fyrir úlfalda að fara gegnum nálarauga, en ríkan mann að komast inn í guðsríki.“
26 Nú urðu lærisveinarnir öldungis forviða! „Hver getur þá orðið hólpinn?“ spurðu þeir.
27 Jesús horfði fast á þá og sagði: „Án Guðs er það ómögulegt, en Guði er enginn hlutur um megn.“
28 Þá tók Pétur að telja upp allt sem hann og lærisveinarnir hefðu yfirgefið og sagði síðan: „Við höfum yfirgefið allt og fylgt þér…“
29 Jesús svaraði: „Ég fullvissa ykkur um að hver sá sem yfirgefur allt – heimili, bræður, systur, móður, föður, börn eða eignir – af kærleika til mín og til að geta flutt öðrum gleðiboðskapinn, mun fá sín laun.
30 Honum verður launað hundraðfalt! Heimili, bræður, systur, mæður, börn og land – og ofsóknir. Allt þetta mun hann fá á jörðu og auk þess eilíft líf í hinum komandi heimi.
31 Þá mun lítið verða úr mörgum sem nú telja sig mikla, en margir sem nú eru fyrirlitnir, munu þar hljóta virðingu.“
Jesús segir fyrir um dauða sinn
32 Nú lá leiðin til Jerúsalem. Jesús gekk hratt á undan lærisveinunum, sem fylgdu honum undrandi og kvíðnir.
Jesús fór með þá afsíðis og tók enn að lýsa fyrir þeim því sem biði hans í Jerúsalem.
33 „Þegar þangað kemur mun ég, Kristur, verða handtekinn og leiddur fyrir æðstu prestana og leiðtoga þjóðarinnar. Þeir munu dæma mig til dauða og selja mig í hendur Rómverjanna, svo þeir geti tekið mig af lífi.
34 Fyrst munu þeir hæðast að mér og hrækja á mig, síðan húðstrýkja, og því næst lífláta mig. Þrem dögum síðar mun ég rísa upp frá dauðum.“
35 Nú komu Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, til hans og sögðu við hann í hálfum hljóðum: „Meistari, okkur langar að biðja þig um nokkuð.“
36 „Hvað er það?“ spurði hann.
37 „Okkur langar að sitja næst þér í konungsríki þínu, annar hægra megin, hinn vinstra megin,“ svöruðu þeir.
38 „Þið vitið ekki um hvað þið eruð að biðja!“ sagði Jesús. „Getið þið drukkið þann sorgarbikar sem ég verð að drekka? Eða skírst þeirri þjáningaskírn sem ég verð að skírast?“
39 „Já, já, það getum við,“ svöruðu þeir. Þá sagði Jesús: „Já, þið munuð vissulega fá að drekka þennan bikar minn og skírast þessari skírn,
40 en ég hef ekki leyfi til að láta ykkur eftir hásætin sem næst mér eru og það hefur reyndar þegar verið ákveðið hverjir þau skuli hljóta.“
41 Þegar hinir lærisveinarnir komust að því hvers Jakob og Jóhannes höfðu spurt, urðu þeir mjög gramir.
42 Jesús kallaði þá til sín og sagði: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða yfir þjóðunum, drottna yfir þeim og láta þær kenna á valdi sínu,
43 en þannig er það ekki meðal ykkar. Sá ykkar sem vill verða mikill, verður að vera þjónn hinna,
44 og sá sem vill verða mestur allra, verður að vera allra þræll.
45 Ég, Kristur, kom ekki hingað til að láta þjóna mér, heldur til að þjóna öðrum, og gefa líf mitt sem lausnargjald fyrir marga.“
46 Þeir komu til Jeríkó. Síðar, þegar þeir voru að fara þaðan aftur, fylgdi honum mikill mannfjöldi. Við veginn sat blindur betlari, Bartímeus, sonur Tímeusar.
47 Þegar Bartímeus heyrði að Jesús frá Nasaret færi þar, tók hann að hrópa og kalla: „Jesús, sonur Davíðs, miskunnaðu mér!“
48 Margir skipuðu honum að þegja, en það varð til þess að hann hrópaði enn ákafar: „Sonur Davíðs, miskunnaðu mér!“
49 Þegar Jesús heyrði hrópin, nam hann staðar og sagði: „Segið honum að koma.“ Þeir kölluðu því á blinda manninn og sögðu: „Þú ert heppinn! Hann sagði þér að koma.“
50 Bartímeus henti af sér yfirhöfninni, stökk á fætur og flýtti sér til Jesú.
51 „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“ spurði Jesús. „Meistari,“ sagði blindi maðurinn, „mig langar að fá sjónina!“
52 „Bæn þín er heyrð,“ sagði Jesús. „Trú þín hefur læknað þig.“ Samstundis fékk blindi maðurinn sjónina og fylgdi Jesú áleiðis.